Sunday, April 5, 2015

Páskarnir, brunch og kósýheit


Hjá mér hefur verið einstaklega mikið að gera undanfarið þar sem ég ákvað að skella mér í nám til að næla mér í Mastersgráðuna í kennslu og menntunarfræðum yngri barna. Einnig varð ég formaður Menningar- og æskulýðsnefndar hér í sveit og staða mín sem móðir, eiginkona og kennari hefur ekki breyst en ennþá jafn dásamlegt!

Gulrótarkaka í páskaham!
Uppskrift má finna undir uppskriftarflipanum :)

Í dag er páskadagur og fékk ég málshátinn "Ástin er límið sem heldur heiminum saman" sem átti mjög vel við þar sem við buðum foreldrum mínum, systrum, ömmu minni og afa í brunchog því heilmikil ást komin saman undir eitt þak. Nýja vinnukona foreldra minna, hún Emma, kom einnig. Við buðum upp á lamba-carpaccio sem heppnaðist einstkalega vel. Ég er svo heppin að vera komin af bóndabýli og því hæg heimatökin. Ég greip mér hrygg úr frystinum og úrbeinaði hann svo að ég var að enda komin með tvær fallegar fillet í hendurnar. Ég fann fína uppskrift að lamba-carpaccio í Gestgjafanum en hef útfært réttin aðeins þannig að ég fái meira bragð í kjötið.

Lamba - carpaccio

400 g lambafillet
1 msk sítrónusafi
1 1/2 tsk dijon sinnep
1 tsk pipar (helst nýmalaður)
1 tsk salt
1 - 2 hvítlauksgeirar, pressaðir
2 dl fínt saxað klettakál
nokkrar timian greinar

Blandið öllu saman nema timianinu. Setjið blönduna utan um kjötið, leggið timian greinar yfir og vefjið plastfilmu utan um það. Frystið kjötið.

Skerið kjötið hálffrosið niður í þunnar sneiðar en ekki bera það samt fram frosið.
Það er best nær þiðið.

Berið fram með klettakáli, parmesan, snittubrauði og granatdressingu.


Ég var einnig með krúttlegan og gómsætan hindberja smárétt sem er einstaklega einfaldur í gerð og tilvalinn fyrir hvaða tilefni sem er. Móðir mín kolféll fyrir þessum tveimur réttum, hún er ekki mikið fyrir kökur og eftirrétti en kjöt og allt það sem inniheldur samanstendur af yfir 50% osti er það sem nær henni. Ég ákvað að skella inn þessum tveimur réttum þar sem að ást mömmu hefur haldið heiminum mínum saman einstaklega oft!

Hindber á ostabeði með balsamik sýrópi

1 dl gott balsamik edik
4 1/2 msk sykur
1/2 tsk sítrónusafi

Hitið upp þar til sykur er uppleystur. Sjóðið þá niður þar til um 3/4 dl eru eftir. Kælið niður.

2,5 dl mascarpone ostur
1,5 dl rjómi
1/2 tsk vanilludropar
2 msk sykur
fersk hindber
hindberjasulta

Hærið mascarpone ostinn örlítið upp. Bætið síðan við rjómanum, vanillunni og sykrinu og hrærið þar til það er farið að toppa aðeins og orðið fallega samfellt. Kælið í 2-4 tíma.

Setjið síðan hálfa teskeið af hindberjasultu í hvert staupglas, eina kúfaða teskeið af mascarpone blöndunni, setjið síðan eitt hindber ofan á og smá balsamik edik yfir.

Uppskriftin dugir í um 20-25 staup. 
Það er alltaf svo gaman að hittast og eiga notalega stund saman. Í eldhúsinu líður mér best og eftir stressmiklar vikur og mikið álag var æðislegt að geta eytt svona miklum tíma í eldhúsinu til að undirbúa þennan brunch. Nú finnst mér ég vera komin í gírinn og fera bara að undirbúa næsta brunch, það þarf ekki alltaf tilefni til að hittast, bara góðan félagsskap og frábær matur skemmir ekki fyrir !


Wednesday, September 3, 2014

Snilldar gúllas


Ég lenti í því síðasta mánudag kl. 17:30 að uppgötva það að ég var ekkert búin að pæla í kvöldmat. Ísskápurinn svo gott sem tómur. Þá voru góð ráð dýr. Ég kippti gúllaskjöti upp úr kistunni og því sem til var í ísskápnum. Úr varð þessi gúllasréttur sem sló í gegn hjá öllum í familíunni. Sá yngsti sem heldur að kjötbitar séu ómanneskjuleg fæða fannst sósan og hrísgrjónin góð sem er toppeinkunn hjá þeim sem til þekkja.

Án frekari málalenginga að þá er hér þessi snilldar réttur :)

Gúllas tóma ísskápsins
600 g gúllas (nauta eða kinda)
1 laukur
4 hvítlauksgeirar
1 appelsínugul papríka
200 g hakkaðir niðursoðnir tómatar
5 dl rjómi (má alveg setja 2,5 rjómi og 2,5 vatn)
3 msk rjómaostur
1 grænmetisteningur (eða sambærilegan kraft)
1 nautakjötsteningur (eða sambærilegan kraft)
2 lárviðarlauf
Pipar

Skerið laukinn og hvítlaukinn og steikið á stórri pönnu í smjörklípu. Þegar laukurinn fer að verða glær að setja þá papríkuna út á, steikja smávegis og bæta síðan gúllasbitunum út á. Steikið bitana þar til þeir verða nær lokaðir og setjið þá út í allt nema piparinn. Sjóðið saman í 30-40 mín á miðlungshita. Ef hún fer að verða of þykk sósan að þá er um að gera að bæta smávegis vatni við. Piprið síðan gúllasið eftir smekk og ef ykkur finnst vanta salt þá getið þið bætt því við en það er svo mikið saltmagn í teningunum að mér fannst ekki vanta salt.

Borið fram með hrísgrjónum og grænmeti.

Ef það er til grænmeti í ísskápnum að þá er um að gera að bæta því út í með papríkunni en ég átti ekkert annað en papríku í fátæklega ísskápnum mínum þennan daginn. En gott var þetta!

Thursday, July 17, 2014

Kjúklingur þrisvar sinnum, annar hluti


Þá er komið að seinni réttinum sem var í raun afgangsréttur af afgangsréttinum, þeim sem ég deildi með ykkur í gær.

Ég geri það alltaf við brauð, sem að ég hef bakað sem er orðið hart, að skella því í matvinnsluvélina og rífa það niður í öreindir. Síðan sting ég því í frystinn til að bíða þess tíma þegar ég þarf að raspa eitthvað. Þetta er lang besta raspið og mér dettur í hug að kaupa rasp út í búð eftir að ég tók upp á þessu. Þetta rasp kom sér líka vel við gerð þessa rétts.

Rísottó buff

Afgangur af kjúlkingarísottóinu.
100 g beikon (má auðvitað vera meira fyrir beikonunnendur).
Egg, pískað og kryddað með salti og pipar
Rasp

Steikja beikonið á pönnu þar til það er rétt að verða stökkt, saxið það niður í bita. Hafið rísottóið í skál og blandið beikoninu við og hrærið því vel saman við. Búið síðan til lófarstór buff, veltið því upp úr egginu, því næst raspinum og steikið á pönnunni sem beikonið var steikt á (en verið búin að hella fitunni af).

Ég bar buffið fram með afgangnum af graskerinu frá kvöldinu áður og hvítlaukssósu úr grískri jógúrt (3 kúfaðar msk grísk jógúrt, 2 hvítlauksgeirar, 1 tsk hvítlauksedik, salt og pipar og þynnt út í ásættanlega þykkt með vatni). Við erum voðalega hrifin af þessari hvítlaukssósu okkar.

Þetta má auðvitað gera við öll rísottó sem gerð eru og alltaf hægt að leika sér að því að bæta út í þau.

Wednesday, July 16, 2014

Kjúklingur þrisvar sinnum, fyrri hluti

Eins og kom fram um daginn að þá er ég með "ofnæmi" fyrir því að henda mat. Ég eldaði eitt sunnudagskvöldið fyrir okkur heilan kjúkling og var með mikið meðlæti með. Af þeim sökum var helmingurinn af kjúklingnum eftir. Sá helmingur dugði í tvo aðra rétti sem ég ætla að deila með ykkur. Hér má sjá fyrri réttinn, sá seinni kemur á morgun en hann er eiginlega afgangsmatur af afgangsmatnum. Þetta er ef til vill skrítið áhugamál, þ.e. að fá einstaka ánægju af því að gera afgangsmat en launin eru verulega góð á bragðið.

Kjúklingarisottó

2 skallottulaukar
3 hvítlauksgeirar
6 msk smjör
1 l kjúklingasoð
afgangskjúklingur skorinn í bita
1 dl villisveppir
3 dl hrísgrjón
5 sveppir (hvítir eða kantarellu)
2 dl rjómi
2 dl parmesan, rifinn
1/2 villisveppaostur, rifinn
1 msk timían
1 msk steinselja
Salt og pipar

Ég nota stóra stálpönnu til að gera risottóin mín, mér finnst hún þægilegust í það hlutverk.

Setjið villisveppina í kalt vatn og skolið þá örlítið, setjið þá síðan í skál með köldu vatni sem flýtur aðeins yfir og leyfið þeim að mýkjast. Steikið skallottulaukana og hvítlauksgeirana í smjörinu þar til glærir. Á meðan skal hita upp einn líter af soði og setja kjúklingabitana út í það. Þegar laukarnir eru orðnir glærleitir skal setja hrísgrjónin út í og hita þau aðeins. Setjið hvítu sveppina um leið út í og hrísgrjónin.  Þegar hrísgrjónin hafa hitnað skal setja 1/4 af soðinu út í. Bætið allt smá og smá af soðinu út í þegar hrísgrjónin eru við það að klára að draga í sig frá síðasta skammti. Rétt áður en settur er síðasti skammturinn af soðinu skal hella vökvanum af villisveppunum út í risottóið, saxa sveppina og setja þá út í. Þegar síðasti hlutinn af soðinu er að verða búinn á pönnunni skal bæta út í rjómanum,  parmesan ostinum, villisveppaostinum og kryddinu. Saltið og piprið eftir smekk. Hrærið þar til risottóið er þykkt og kremað, þá er það tilbúið.

Ég bar risottóið fram með fersku salati, ristuðu hvítlauksbrauði og gljáðu graskeri (grasker sem heitir "butternut squash" á ensku).

Gljáð grasker


700 g grasker skorið í ferninga
60 g smjör
50 g púðursykur
1 1/2 tsk salt
1 1/2 tsk pipar

Bræðið smjörið og hrærið við það púðursykur, salt og pipar. Veltið graskersferningunum upp úr því, setjið í ofnfast mót eða skúffu og steikið inni í ofni í 30 mínútur við 180 °C. Hrærið graskerið reglulega upp svo að það steikist jafnt.

Hlakka til að deila hinni uppskriftinni með ykkur á morgun :)

Wednesday, July 2, 2014

Gulrótarkaka sem heillar


Ég hef ávallt verið mikið fyrir gulrótarkökur en þær eru mjög misjafnar. Ég er ef til vill verulega dómhörð á kökur af þessari tegund en það hefur þó skilað sér í því að ég hef fundið mér uppskrift sem ég er afskaplega ánægð með. Það vill líka svo vel til að í hvert skipti sem ég býð upp á hana er alla vega einn til tveir sem að hrósa kökunni og segja að þeir hafi sjaldan smakkað jafn góða gulrótarköku.

Eins og með alla góða hluti í lífinu að þá eru þeir enn betri ef fólk deilir þeim með öðrum og því ákvað ég að deila þessari uppáhalds gulrótarkökuuppskriftinni minni með ykkur.


Gulrótarkaka Hilju

Þessi uppskrift gefur tvo botna. Það er hægt að hafa hana tveggja hæða en ég kýs að hafa hana á einni hæð og þá fæ ég bara tvær kökur. Mér finnst hún betri þannig. 

2 bollar sykur (5 dl)
1/2 bolli matarolía (Isio eða ólífu) - (1,25 dl)
4 stór egg 

Þetta er þeytt mjög vel saman.

2 bollar hveiti (5 dl)
2 tsk matarsódi
2 tsk kanill
1 tsk salt
2 bollar rifnar gulrætur (5 dl)

Þessu blandað saman við blautu efnin.
Hellt í tvö stór tertuform (26 cm)
Bakað við 200°C í 30-40 mín eða þar til pinninn kemur þurr upp úr.

Krem á tvo botna 
Helmingið ef þið ætlið bara að nota einn botn.

250 g rjómaostur
1/3 bolli smjör
1/2 tsk vanilludropar

Þeytt mjög vel saman

2 bollar flórsykur (5 dl)

Allt hrært saman. 


Síðan er bara að skella kreminu á kælda botnana og njóta til hins ýtrasta. Ég fæ bara vatn í munninn við tilhugsunina um þessa dýrindis köku. 

Njótið!

Friday, June 27, 2014

Endurunnið grillkjöt?

Ef það er eitthvað sem að ég þoli ekki í eldhúsinu að þá er það að henda mat. Ég lenti í því í vikunni að ég var komin með grjónagraut, hakkabollur og afgang af grísabógssteik í ísskápinn. Einn einstakur réttur nægði ekki fyrir alla familíuna þannig að þá var eina ráðið að hafa allt saman. Þegar ég og Bjössi kynntumst á sínum tíma að þá var hann ekki mikið fyrir endureldaðan mat og sagði hreint út að upphitaður matur væri vondur.

Þeir sem þekkja mig vita ofur vel að þegar svona er sagt við mig geri ég allt til að breyta skoðun þeirra því ég veit að slíkur matur getur verið ofur góður. Ég braut því heilann yfir þessum 270 g af grísabógssteik sem ég átti eftir, skoðaði uppskriftir en fann ekkert spennandi. Sá reyndar nokkrar uppskriftir þar sem að grískjöt hafði verið rifið niður og blandað við BBQ sósu og sett á hamborgarabrauð. Þá fékk ég hugmyndina. Ég geri borgara úr þessu kjöti.

Ég byrjaði á því að skera kjötið í minni bita og setja í blandarann minn og stilla á söxun. Ég er svo heppin að eiga Kitchen Aid blandara með hinum margvíslegu stillingum. Ég saxaði þar til það leit út eins og meðfylgjandi mynd sýnir.







Ég setti í skál:

  • 270 g af kjötikurlinu (sem var öll heildin hjá mér.
  • Eitt pískað eggi 
  • 1 msk af Worcestershire sósu
  • 20 g af smátt söxuðum lauk ... má alveg setja aðeins meira af honum en það fer bara eftir smekki og vilja fólks. Við sjálf viljum ekki of mikið af lauk í matnum. 





Síðan er bara að hnoða þetta saman og búa til tvo hamborgara úr kjötinu og steikja á pönnu. 
Ég setti smá smjörklípu á pönnuna því mér finnst það gefa smá bragð í kjötið ásamt því að mér finnst það ekki jafn þurrt. Þegar ég var búin að snúa kjötinu einu sinni skellti ég sveppum með á pönnuna og síðan smávegis af beikoni sem var við það að skemmast inni í ísskápnum en það hafði orðið afgangs á afmælisdaginn minn. Ég steikti tvisvar á hverri hlið á borgaranum og þegar kom að því að snúa honum við í síðasta skipti smurði ég smá BBQ sósu á botninn sem átti eftir að steikja í annað skiptið. Setti síðan ost á toppinn. 

Borgarana setti ég á venjulegt hamborgarabrauð með sósu sem er gerð úr grískri jógúrt og nóg af graslauk sem er þynnt út með vatni. Nóg af grænmeti, borgarinn ofan á það og sveppablandan næst á eftir ásamt sósu. Hatturinn kemur síðan efst. 


Áður en ég byrjaði á borgurunum útbjó ég léttvægari hasselback kartöflur, þ.e. skar bara örfáar ræmur og ekki djúpt niður, smurði með ólífuolíu, setti pipar og salt á þær og henti þeim síðan inn í ofn við 200°C í 30-40 mínútur. Þegar þær voru hálfnaðar með eldunartímann setti ég smá smjörklípu ofan á og tíu mínútum áður penslaði ég þær með því sem var í botninum á forminu.

Ég lýg því ekki ... þetta "upphitaða" kjöt varð að alveg virkilega góðum borgara.

Endurvinnsla? 

Verði þér að góðu. 

Tuesday, June 24, 2014

Brúðkaupsgaman




Góðir vinir okkar, þau Halli og Ásta, giftu sig laugardaginn 21. júní. Þetta var yndisleg athöfn undir berum himni rétt við Nauthól. Maðurinn minn var beðinn um að vera veislustjóri og ég fékk að vera með.

Við vinnum afskaplega vel saman. Ég fæ hugmyndir og hann útfærir þær þannig að þær séu framkvæmanlegar og á það sérstaklega við þetta "brúðkaupshjól". Ég kom með hugmyndina og hvernig ég sæi þetta fyrir mér og Bjössi smíðaði standinn meðan ég útbjó hjólið sjálft með svörtu teipi og hjartalaga miðum. Í brúðkaupsveislunni sjálfri áttu borðin að senda af og til fulltrúa sinn til að snúa því. Flest á hjólinu sneri að eitthverju sem háborðið átti að framkvæma. Virkilega skemmtilegt tvist í brúðkaupsveislunni og við mjög ánægð með útkomuna.

Þetta vinafólk okkar á heima úti í Sviss og þar af leiðandi vildu þau helst fá pening í brúðkaupsgjöf þar sem þau vildu ekki vera að ferðast með mikið af dóti til Sviss. Við vinirnir tókum okkur saman í gjöf og ég gerði fiðrildi úr tveimur af þúsund krónunum, teiknaði og málaði myndina í rammann og skundaði síðan í Ikea þar sem ég fann þennan fallega bakka, fjólubláa skraut og rammann. Mér finnst svo leiðinlegt að gefa bara pening í umslagi og tók þennan vinkil á gjöfina. Ég er mjög sátt við útkomuna og vinirnir virtust ánægðir með hvernig ég leysti gjafarútlitið af hendi. :)

Það er hægt að finna margar hugmyndir um hvernig hægt er að brjóta saman peninga á youtube, bara slá upp money origami í leitarstikunni og þá koma trilljón hugmyndir og fínar leiðbeiningar, síðan er það bara að finna það sem að hentar manni best.